Landsliðsfyrirliðinn búinn að semja í Frakklandi?

Sara Björk Gunnarsdóttir er á leið til Lyon samkvæmt frönskum …
Sara Björk Gunnarsdóttir er á leið til Lyon samkvæmt frönskum fjölmiðlum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi, mun ganga til liðs við franska fyrstudeildarliðið Lyon í sumar þegar samningur hennar í Þýskalandi rennur út en það eru franskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Lyon er besta félagslið Evrópu en liðið hefur orðið Evrópumeistari undanfarin fjögur ár.

„Lyon hefur nú þegar samið við tvo leikmenn fyrir næstu leiktíð,“ segir í umfjöllun RMC Sport um málið. „Í fyrsta lagi mun Lola Gallardo, markvörður Atlético Madrid, ganga til liðs við félagið í sumar en henni er ætlað að fylla skarð Söruh Bouhaddi sem er á leiðinni til Bandaríkjanna þar sem hún mun leika með Utah Royals í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Þá mun hin 29 ára gamla Sara Björk Gunnarsdóttir ganga til liðs við félagið og er henni ætlað að fylla skarð Dzsenifer Marozsán sem er einnig á leið til Utah Royals í Bandaríkjunum. Miðjumaðurinn Sara Björk hefur leikið með Wolfsburg í Þýslandi frá árinu 2016 og verður hún góð viðbót við mjög öflugan leikmannahóp Lyon,“ segir ennfremur í umfjöllun RMC Sport.

Sara Björk er ein sigursælasta knattspyrnukona Íslandssögunnar. Hún varð fjórfaldur Svíþjóðarmeistari með Rosengård á árunum 2011 til ársins 2015. Þá hefur hún þrívegis orðið deildarmeistari með Wolfsburg, sem og þrívegis bikarmeistari. Þá á hún að baki 131 A-landsleik fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað 20 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert