Býðst til þess að spila frítt

Djibril Cisse í búningi Liverpool.
Djibril Cisse í búningi Liverpool. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Djibril Cisse, sem m.a. spilaði með Liverpool, hefur boðist til þess að spila frítt með liði í efstu deild Frakklands, þar sem hann vill ólmur skora 100. markið sitt í deildinni. Hefur framherjinn skorað 96 mörk með Auxerre, Marseille og Bastia í frönsku 1. deildinni. 

Cisse lagði skóna á hilluna árið 2018 en hann vill snúa aftur til að ná 100 marka áfanganum. Verður Cisse 39 ára í ágúst.

„Ég er markaskorari og tölur skipta mig máli. Ég elska að skora mörk og ég er kominn með 96 í frönsku deildinni. Mig vantar fjögur mörk og ég verð að ná þeim áður en ég dey. Það er eitthvað sem pirrar mig við að ég sé ekki kominn með 100,“ sagði Cisse við Sky Sports. 

„Þetta er komið á það stig að ég myndi spila frítt. Þetta snýst ekki um peninga, heldur mína persónulegu drauma. Ég verð að vera 100 prósent sáttur við ferilinn. Ég hef ekki fengið nein tilboð hingað til,“ bætti Cisse við. 

mbl.is