Rúrik fær ekki að æfa með liðinu

Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason fær ekki að æfa með liði sínu í Þýskalandi, Sandhausen, í kjölfar þess að hann neitaði að lækka laun sín þegar óskað var eftir því við leikmenn liðsins.

Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football og mbl.is hefur staðfestar heimildir fyrir því að þetta sé staðan. Haft var samband við Rúrik en hann kvaðst ekkert geta tjáð sig um málið í bili. Samningur Rúriks við félagið rennur út í lok júní en hann kom til Sandhausen í ársbyrjun 2018 frá Nürnberg.

Fyrir vikið hefur Rúrik ekki verið í leikmannahópi Sandhausen í þeim tveimur leikjum sem hafa verið leiknir eftir að keppni hófst á ný fyrr í þessum mánuði. Sjö umferðum er ólokið og eftir að hafa fengið eitt stig í tveimur leikjum eftir hléið vegna kórónuveirunnar hefur Sandhausen dregist niður í fallbaráttu deildarinnar. Liðið er í 14. sæti af 18 liðum og aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is