Ákvörðunin gat ekki verið auðveldari

Ögmundur Kristinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Olympiacos.
Ögmundur Kristinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Olympiacos. Ljósmynd/@OlympiakosFr

Ögmundur Kristinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Grikklandsmeistara Olympiacos en þetta staðfesti Larissa, hans núverandi félag, á heimasíðu sinni í dag.

Ögmundur hefur leikið með Larissa frá árinu 2018 og verið algjör lykilmaður í liðinu síðan en hann hefur stimplað sig inn sem einn af betri markvörðum deildarinnar.

Ögmundur, sem er 31 árs gamall, er uppalinn hjá Fram en hann viðurkennir að það hafi verið auðveld ákvörðun að semja við Olympiacos.

„Ég er virkilega stoltur og mjög ánægður með þessi skipti,“ sagði Ögmundur í samtali við mbl.is í dag.  Þetta er risastórt lið, bæði í Grikklandi og í Evrópu. Þetta er sögufrægt félag með fjölda stuðningsmanna og þetta eru virkilega spennandi tímar.

Mér hefur gengið virkilega vel hjá Larissa frá því ég gekk til liðs við félagið árið 2018 en á sama tíma hefur maður líka fundið fyrir áhuga annarra liða. Ég hafði hug á að taka smá áhættu og reyna fyrir mér annarsstaðar eftir tvö ár hjá Larissa og þegar að Olympiacos lagði fram tilboð þá var þetta í raun algjör „no brainer“ fyrir mig persónulega,“ sagði Ögmundur sem á að baki 15 A-landsleiki fyrir Ísland.

Ögmundur Kristinsson á að baki 15 A-landsleiki.
Ögmundur Kristinsson á að baki 15 A-landsleiki. AFP

Eftirsóttur í Grikklandi

Fjöldi liða sýndi landsliðsmanninum athygli en hann er einbeittur á að klára tímabilið almennilega með Larissa, áður en hann fer að hugsa of mikið um lífið með Olympiacos.

„Það hefur verið ágætis aðdragandi að þessu og ég hef vitað af áhuga þeirra í þó nokkurn tíma. Að sama skapi hef ég í raun bara einbeitt mér eingöngu að Larissa enda lítið annað í boði. Hlutirnir í fótboltanum hafa breyst mikið vegna kórónuveirunnar og ég mun því klára tímabilið með Larissa og ganga svo formlega til liðs við Olympiacos þegar tímabilinu lýkur hérna úti.

Ég er því einbeittur á að gera vel í fyrir Larissa þessa stundina enda eiga þeir mjög stóran þátt í minni velgengni í Grikklandi og það er eitthvað sem þarf að bera virðingu fyrir,“ bætti Ögmundur við í samtali við mbl.is.

Nánar verður rætt við Ögmund Kristinsson á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is