Ótrúleg endurkoma Milan gegn Juventus

AC Milan og Juventus buðu upp á ótrúlegan leik.
AC Milan og Juventus buðu upp á ótrúlegan leik. AFP

AC Milan vann ótrúlegan 4:2-sigur á toppliði Juventus í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik lifnaði leikurinn heldur betur við í seinni hálfleik. 

Adrien Rabiot og Cristiano Ronaldo komu Juventus í 2:0 snemma í seinni hálfleik en Zlatan Ibrahimovic minnkaði muninn úr víti á 62. mínútu, aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 3:2, Milan í vil, þar sem Franck Kessié og Rafael Leao höfðu skorað fyrir Mílanóliðið. 

AC Milan bætti við fjórða markinu á 80. mínútu. Króatinn Ante Rebic skoraði þá í öðrum leiknum í röð og gulltryggði magnaðan sigur. 

Þrátt fyrir úrslitin er Juventus í toppsætinu með 75 stig, sjö stigum meira en Lazio sem er í öðru sæti. Milan er í fimmta sæti með 49 stig. 

mbl.is