Nánast kominn upp um deild í Danmörku

Kjartan Henry í eldlínunni með Vejle.
Kjartan Henry í eldlínunni með Vejle. Ljósmynd/Vejle

Kjartan Henry Finnbogason og samherjar hans hjá Vejle eru nánast búnir að tryggja sér sæti í efstu deild Danmerkur eftir 2:0-útisigur á Vendsyssel í B-deildinni í kvöld. 

Kjartan lék fyrstu 78 mínúturnar með Vejle í kvöld, en hann var ekki á meðal markaskorara í dag. Liðið er með 64 stig og þegar þessi frétt er skrifuð með tíu stiga forskot á Viborg þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir. 

Rúmar 20 mínútur eru eftir af leik Viborg og Fremad Amager og er staðan 2:1, Fremad Amager í vil. Takist Viborg ekki að jafna metin, er sæti Kjartans og félaga í efstu deild staðfest. Verður fréttin uppfærð um leið og leik Fremad Amager og Viborg lýkur. 

Hinn 34 ára Kjartan hefur leikið 28 leiki á leiktíðinni og skorað í þeim 17 mörk, tveimur fleiri en Martin Helsted hjá Køge, og er hann markahæstur í deildinni. Hefur Kjartan leikið í efstu deild áður, bæði með Horsens og Vejle, en Vejle féll á síðasta ári og staldrar því stutt við í DBdeildinni. 

Uppfært: Viborg jafnaði á 87. mínútu gegn Fremad Amager og þarf Vejle því eitt stig til viðbótar til að gulltryggja sætið í efstu deild. 

mbl.is