Íslendingurinn ungi gerði fimm ára samning

Andri Fannar Baldursson í leik með Bologna.
Andri Fannar Baldursson í leik með Bologna. Ljósmynd/Bologna

Knattspyrnumaðurinn ungi Andri Fannar Baldursson hefur framlengt samning sinn við ítalska A-deildarfélagið Bologna um fimm ár og er hann nú samningsbundinn til ársins 2025. 

Félagið greindi frá tíðindunum á heimasíðu sinni. Kom Andri sjö sinnum af bekknum hjá Bologna á nýliðinni leiktíð, en hann kom til félagsins frá Breiðabliki á síðasta ári. Lék hann fyrsta leikinn gegn Udinese í febrúar. 

Félög á Englandi, Ítalíu og víðar hafa sýnt áhuga á Andra síðustu vikur og mánuði en Bologna hafði lítinn áhuga á að selja Íslendinginn. 

Andri hefur leikið 34 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim fjögur mörk. Bologna hafnaði í tólfta sæti ítölsku A-deildarinnar á leiktíðinni með 47 stig í 38 leikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert