Vilja lykilmann Chelsea til Ítalíu

N'Golo Kanté
N'Golo Kanté AFP

N'­Golo Kanté, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Chel­sea, gæti verið á leiðinni í ítalska boltann samkvæmt fjölmiðlum þar í landi en Inter Mílanó er sagt bera víurnar í Frakkann.

Kanté er orðinn 29 ára gam­all en hann gekk til liðs við Chel­sea árið 2016. Enska úr­vals­deild­ar­fé­lagið borgaði Leicester 32 millj­ón­ir punda fyr­ir varn­arsinnaða miðju­mann­inn sem hef­ur tví­veg­is orðið ensk­ur meist­ari, með Leicester 2016 og Chel­sea 2017. Þá var Kanté val­inn besti leikmaður ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar tíma­bilið 2016-17. Ant­onio Conte stýrði einmitt Chelsea þá en er nú þjálfari Inter sem endaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Kanté hef­ur verið óhepp­inn með meiðsli undanfarið og byrjaði aðeins 20 leiki í ensku úr­vals­deild­inni á síðustu leiktíð. Gazzetta dello Sport segir að forráðamenn Inter hafi byrjað viðræður við Lundúnaliðið en þar á bæ eru menn harðir á því að leikmaðurinn er ekki til sölu.

mbl.is