Midtjylland áfram í umspil Meistaradeildarinnar

Mikael Anderson í leik með Midtjylland í sumar.
Mikael Anderson í leik með Midtjylland í sumar. Ljósmynd/Midtjylland

Mikael Anderson og samherjar í danska meistaraliðinu Midtjylland eru komnir í fjórðu umferðina í undankeppni Meistaradeildarinnar í knattspyrnu eftir 3:0-sigur gegn Young Boys frá Sviss á heimavelli sínum í Herning í kvöld.

Það voru þeir Anders Dreyr og Awer Mabil sem skoruðu mörk Midtjylland í leiknum og þá varð Jordan Lefort fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Young Boys. Mikael var varamaður hjá Midtjylland og kom ekki við sögu í leiknum.

Midtjylland mætir Slavia Prag frá Tékklandi í umspili um laust sæti í Meistaradeildinni en tapliðið úr þeirri viðureign fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í staðinn.

Mikael hefur verið orðaður við brottför frá dönsku meisturunum að undanförnu og hefur hann meðal annars verið orðaður við AGF. 

Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður Íslands, er samningsbundinn AGF en Mikael, sem er 22 ára gamall, lék með unglingaliði AGF áður en hann gekk til liðs við Midtjylland, 14 ára gamall.

Midtjylland er annað Íslendingaliðið sem tryggir sér sæti í umspili fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar en Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans í PAOK komust áfram í gær eftir 2:1-sigur gegn Benfica í Grikklandi.

Leiknir verða tveir leikir í umspilinu, heiman og ytra og fara leikirnir fram dagana 22.-23. september og 29.-30. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert