Gamla ljósmyndin: Barcelona hafði snemma áhuga

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Eiður Smári Guðjohnsen vakti snemma athygli fyrir hæfileika sína á knattspyrnuvellinum. Bæði hér heima þar sem hann lék með ÍR í yngri flokkunum og í Belgíu þar sem hann ólst að mestu upp. 

Á unglingsárum gekk Eiður í raðir Vals en um svipað leyti voru ýmis stórlið í Evrópu með hann í sigtinu. Fékk hann boð frá mörgum þeirra um að koma til æfinga.

15 ára gamall fór Eiður til æfinga hjá Barcelona í Katalóníu og dvaldi þar í níu daga. Eftir komuna heim var um heimsóknina fjallað í Morgunblaðinu. Birtist meðfylgjandi mynd þá með greininni hinn 16. febrúar 1994. 

Myndina tók hinn kunni ljósmyndari Árni Sæberg sem myndað hefur fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Á myndinni með Eiði er móðir hans Ólöf Einarsdóttir sem var með í för þegar Eiður æfði með Barcelona. 

„En þetta var viss reynsla og þarna var allt stærra og aðstæður betri en ég hafði áður kynnst. Það var líka upplifun þegar ég var kynntur fyrir [Johan] Cruyff. Ég var nánast með störu og náði varla andanum,“ sagði Eiður meðal annars í samtali við Morgunblaðið eftir heimkomuna. 

Svo fór að Eiður samdi við stórliðið í Barcelona. En gerði það reyndar sumarið 2006 og var hjá félaginu þrjú keppnistímabil. Var Eiður í liði Barcelona sem sigraði þrefalt undir stjórn Pep Guardiola árið 2009, varð spænskur meistari, bikarmeistari og Evrópumeistari.

Þegar Eiður skrifaði undir samning við félagið árið 2006 var myndin aftur birt í Morgunblaðinu. 

Eiður var atvinnumaður frá 1994 til 2016 og lék með félagsliðum í níu löndum. 

Eiður Smári hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna 2004 og 2005. 

mbl.is