Evrópumeistararnir steinlágu

Leikmenn Hoffenheim fagna Króatanum Andrej Kramaric eftir að hann kom …
Leikmenn Hoffenheim fagna Króatanum Andrej Kramaric eftir að hann kom liðinu í 3:1 gegn Bayern í dag. AFP

Óvænt úrslit litu dagsins ljós í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag þegar Hoffenheim gjörsigraði Evrópu- og Þýskalandsmeistara Bayern München, 4:1.

Ermin Bicakcic og Munas Dabbur komu Hoffenheim snemma í 2:0 en Joshua Kimmick lagaði stöðuna fyrir Bayern á 36. mínútu og staðan var 2:1 í hálfleik.

Andrej Kramaric kom Hoffenheim í 3:1 á 77. mínútu og hann innsiglaði sigurinn með fjórða markinu úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Hoffenheim hefur þá unnið tvo fyrstu leiki sína og er á toppnum með sex stig, eins og Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg sem unnu óvæntan en glæsilegan sigur á Borussia Dortmund í gær, 2:0. Þar kom Alfreð inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik, rétt eftir að lið hans skoraði sitt annað mark.

Leikmenn Bayern komu þar með heldur betur niður á jörðina en þeir rótburstuðu Schalke 8:0 í fyrstu umferð deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert