Ronaldo fluttur heim með sjúkrabíl

Cristiano Ronaldo á svölum hótels portúgalska landsliðsins þar sem hann …
Cristiano Ronaldo á svölum hótels portúgalska landsliðsins þar sem hann fylgdist með liðsfélögum sínum æfa eftir að hann greindist með kórónuveiruna. AFP

Cristiano Ronaldo er kominn heim til sín í Tórínó á Ítalíu eftir að hafa verið fluttur þangað með sjúkrabifreið frá flugvellinum í borginni eftir hádegið í dag.

Knattspyrnufélagið Juventus gaf út yfirlýsinguna um heimkomuna þar sem sagt var að Ronaldo hefði snúið aftur til Ítalíu með sjúkraflugi sem hafi verið heimilað af heilbrigðisyfirvöldum og yrði í einangrun á heimili sínu.

Ronaldo greindist með kórónuveiruna fyrr í vikunni á meðan hann var í landsliðstörn með Portúgölum en hann spilaði gegn Spánverjum, greindist í kjölfarið og missti fyrir vikið af leik Portúgala og Svía sem fram fer í kvöld.

Brotthvarf hans úr sóttkví hjá Juventus í síðustu viku hefur verið mikið í umræðunni en þá neitaði hann að vera í einangrun á hóteli liðsins eins og aðrir leikmenn, eftir að upp kom smit innan félagsins, og fór heim til fjölskyldu sinnar. Þaðan hélt hann síðan til móts við portúgalska landsliðið en með þessu braut Ronaldo ítalskar sóttvarnareglur og gæti átt eftir að svara frekar fyrir það.

Roberto Testi, yfirmaður heilbrigðismála í Tórínó, sagði að allt varðandi heimkomu Ronaldo hefði verið samkvæmt settum reglum.

„Ég þekki ekki nákvæmlega alla málavexti en samkvæmt reglum getur einstaklingur fengið einkaflugvél skráða í sjúkraflug. Hann getur síðan farið með sjúkrabíl, á eigin kostnað að sjálfsögðu, og verið fluttur þannig heim til sín í minnst tíu daga sóttkví,“ sagði Testi.

mbl.is