Skagamaðurinn kostar tæpa tvo milljarða

Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu.
Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Norrköping í Svíþjóð, er orðaður við hvert stórliðið á fætur öðru þessa dagana.

Sóknarmaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik á dögunum þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA á Wembley en hann er 17 ára gamall.

Ísak hefur slegið í gegn í Svíþjóð á tímabilinu og hafa Juventus, Manchester United og Liverpool öll sent njósnara sína að fylgjast með leikmanninum.

Mirror greindi frá því á dögunum að Juventus leiddi kapphlaupið um leikmanninn og að ítalska félagið gæti lagt fram tilboð í janúarglugganum.

Ísak hefur sjálfur sagt að hann ætli sér að spila áfram með Norrköping en Sportsmail greinir frá því að verðmiðinn á leikmanninum sé í kringum 10 milljónir punda, ef árangurstengdar greiðslur eru teknar með í reikninginn.

Það samsvarar tæplega tveimur milljörðum íslenskra króna, á gengi dagsins, en Gylfi Þór Sigurðsson er dýrasti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi.

Everton borgaði Swansea 45 milljónir punda fyrir miðjumanninn í ágúst 2017, rúmlega átta milljarða íslenskra króna.

mbl.is