Vill aftur til Þýskalands eða til Bandaríkjanna

Aron Jóhannsson fagnar marki með Hammarby fyrr á árinu.
Aron Jóhannsson fagnar marki með Hammarby fyrr á árinu. Ljósmynd/Hammarby

Aron Jóhannsson er á förum frá sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby í knattspyrnu þegar samningur hans rennur út í janúar. Hefur hann hug á því að snúa aftur í þýsku 1. deildina eða að reyna fyrir sér í bandarísku MLS-deildinni. 

„Eftir að þessu tímabili lýkur með Hammarby er allt útlit fyrir að ég muni yfirgefa félagið og fara eitthvert annað. Ég veit ekki nákvæmlega hvert en eins og staðan er núna mun ég fara í janúar,“ sagði Aron í samtali við ESPN.

Aron, sem á 19 landsleiki og fjögur mörk að baki fyrir bandaríska landsliðið, segist helst líta til Þýskalands eða Bandaríkjanna, en hann var á mála hjá Werder Bremen í þýsku 1. deildinni um fjögurra ára skeið en náði ekki að láta ljós sitt skína vegna sífelldra meiðsla.

„Alveg frá því ég yfirgaf Þýskaland hefur mér fundist sem ég þurfi að fara þangað aftur til þess að sýna hvað ég get, að sýna að ég sé nógu góður til þess að spila þar,“ sagði Aron og bætti því við að hann hafi verið óheppinn með meiðsli hjá Bremen.

Aroni hefur gengið vel með Hammarby á tímabilinu, þar sem hann hefur skorað 12 mörk í 22 leikjum og er í fjórða sæti yfir markahæstu menn. Hann kveðst enda vera leikmaður sem geti haft áhrif á leiki og breytt þeim þegar hann er laus við meiðsli og spilar reglulega.

Aron hefur áður lýst yfir því hversu spenntur hann er fyrir því að spila í bandarísku MLS-deildinni og ítrekaði það í samtali sínu við ESPN: „Ég hef alltaf sagt að það sé markmið mitt að spila í MLS-deildinni. Ég hef mikinn áhuga á deildinni og að spila í henni er eitthvað sem mig hefur dreymt um í langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert