Maradona hringdi alltaf eftir ósigur

José Mourinho og Diego Maradona voru góðir vinir utan vallar.
José Mourinho og Diego Maradona voru góðir vinir utan vallar. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, var mikill aðdáandi Diegos Maradona og var í góðu sambandi við argentínsku knattspyrnugoðsögnina.

Maradona féll frá á miðvikudaginn síðasta eftir að hann fékk hjartaáfall á heimili sínu í Buenos Aires í Argentínu.

Mourinho tjáði sig um andlát Maradona fyrir leik Tottenham og Ludogorets í Evrópudeildinni í gær sem lauk með 4:0-stórsigri Tottenham í London.

„Það var annars vegar Maradona og svo var það Diego,“ sagði Mourinho í samtali við BT Sport.

„Ég þarf ekki að tala um Maradona því öll heimsbyggðin veit hvað hann gerði og mun ávallt minnast hans með bros á vor.

Diego var frábær manneskja og það fengu ekki allir að kynnast honum. Maradona var góður vinur og við ræddum oft saman.

Hann var með risastórt hjarta og ég mun sakna hans. Ég eyddi deginum í dag í að segja leikmönnum mínum sögur af honum. 

Ég fékk alltaf símtal eftir ósigur frá honum. Ég fékk aldrei símtal eftir sigra en þegar við töpuðum hringdi hann til þess að segja mér að ég væri sá besti,“ bætti Mourinho við.

mbl.is