Búinn að skrifa undir hjá Hammarby

Jón Guðni Fjóluson á landsliðsæfingu
Jón Guðni Fjóluson á landsliðsæfingu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Guðni Fjóluson landsliðsmaður í knattspyrnu var nú síðdegis kynntur til leiks sem nýr leikmaður sænska félagsins Hammarby en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Stokkhólmsfélagið.

Jón Guðni, sem er 31 árs gamall varnarmaður, lék síðast með Brann í Noregi en hann gerði skammtímasamning við norska félagið í haust og lék ellefu af síðustu tólf leikjum þess í norsku úrvalsdeildinni.

Hann snýr því aftur til Svíþjóðar eftir hálfs þriðja árs fjarveru en Jón Guðni lék með Sundsvall og Norrköping frá 2012 til 2018 en var síðan seldur til Krasnodar í Rússlandi þar sem hann lék til sumarsins 2020. Meistaraflokksferilinn hóf hann með Fram og atvinnuferilinn með Beerschot í Belgíu.

Jón Guðni hefur leikið 95 úrvalsdeildarleiki í Svíþjóð og 39 leiki í B-deildinni þar í landi.

Þá hefur hann leikið 17 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, síðast gegn Belgíu í haust.

„Jón er mjög traustur varnarmaður sem er öflugur í eigin vítateig og svo er hann með mjög öflugan vinstri fót sem við teljum að gefi okkur góða möguleika í spili liðsins. Hann er reyndur leikmaður sem getur spilað mismunandi leikkerfi og það er virkilega gott að fá jafn öflugan leikmann með þá hæfileika sem hann ræður yfir,“ segir Jesper Jansson íþróttastjóri Hammarby á heimasíðu félagsins.

Kemur úr sama félagi og Pétur

Þar er vitnað til þess að Jón komi úr sama íslenska félagi, Fram, og Pétur Marteinsson sem lék með Hammarby við góðan orðstír í kringum síðustu aldamót.

„Félagið sýndi að það vildi virkilega fá mig og ég var aldrei í neinum vafa. Þetta hentar líka fjölskyldunni afar vel, þau hafa verið heima á Íslandi undanfarin tvö ár en nú verðum við sameinuð á ný í Stokkhólmi, auk þess sem ég er að fara að spila með stóru félagi sem getur náð langt,“ segir Jón á heimasíðu Hammarby en hann er ennþá á Íslandi eftir jólafrí þar og er væntanlegur til Stokkhólms í næstu viku.

Hammarby endaði í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar 2020 eftir að hafa verið í toppbaráttunni lengi vel. Aron Jóhannsson var markahæsti leikmaður liðsins en hann er horfinn á braut og er að leita sér að nýju félagi.

Tíundi Íslendingurinn með Hammarby

Jón Guðni verður tíundi íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur með Hammarby. Pétur Marteinsson var fyrstur og lék með liðinu 1996-1998 og aftur 2003-2006. Pétur Björn Jónsson lék með liðinu árið 1998, Gunnar Þór Gunnarsson 2006-2007, Heiðar Geir Júlíusson 2007, Birkir Már Sævarsson og Ögmundur Kristinsson 2015-2017, Arnór Smárason 2016-2018, Viðar Örn Kjartansson 2019 og Aron Jóhannsson 2019-2020.

Hammarby er eitt af vinsælustu knattspyrnufélögum á Norðurlöndum en liðið fær í eðlilegu árferði um eða yfir 30 þúsund manns á heimaleiki sína í Stokkhólmi. Félagið hefur einu sinni orðið sænskur meistari, árið 2001, en ekki tekist að verða bikarmeistari þrátt fyrir að hafa leikið þrjá úrslitaleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert