Vill aftur í ensku úrvalsdeildina eftir dvöl í Kína

Rafa Benítez á hliðarlínunni sem stjóri Newcastle á sínum tíma.
Rafa Benítez á hliðarlínunni sem stjóri Newcastle á sínum tíma. AFP

Spænski knatt­spyrn­u­stjór­inn Rafa Benítez hefur sagt starfi sínu lausu hjá kínverska félaginu Dalian Yifiang og er nú sagður vilja snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

Benítez tók við kínverska liðinu árið 2019 eftir þriggja ára dvöl hjá Newcastle á Englandi. Í yfirlýsingu frá Spánverjanum á heimasíðu hans segir m.a. að hann hafi hætt hjá Dalian til að vera nær fjölskyldu sinni. Þá hefur kórónuveirufaraldurinn auðvitað sett sitt strik í reikninginn líka.

Benítez dvelur nú með fjölskyldu sinni í Liverpool en samkvæmt The Athletic vill hann gjarnan taka við liði á Englandi. Ásamt Newcastle hefur hann þjálfað Chelsea og Liverpool í úrvalsdeildinni en hann gerði Liverpool að Evrópumeisturum árið 2005.

mbl.is