Töpuðu 17 milljörðum og gætu þurft að selja leikmenn

Tómir áhorfendapallar hafa sitt að segja um mikið fjárhagslegt tap …
Tómir áhorfendapallar hafa sitt að segja um mikið fjárhagslegt tap hjá Juventus í vetur. AFP

Nífaldir Ítalíumeistarar í fótbolta, Juventus frá Tórínó, skýrðu í dag frá því að félagið hefði tapað háum fjárhæðum á fyrri hluta yfirstandandi keppnistímabils og gæti þurft að selja leikmenn til að laga fjárhagsstöðuna.

Í hálfsársskýrslu Juventus sem gefin var út í dag kemur fram að félagið hafi tapað rúmlega 113 milljónum evra, eða um 17,3 milljörðum íslenskra króna, á fyrri hluta tímabilsins.

Aðalástæðan er sögð vera mun minni tekjur, að hluta vegna þess að miðasala hrundi af völdum kórónuveirufaraldursins, en einnig vegna þess að sala á ýmisskonar varningi tengdum félaginu hafi líka minnkað umtalsvert. Samt jókst sala félagsins í gegnum mnetið um 60 prósent.

Juventus hefur unnið ítalska meistaratitilinn samfleytt frá 2012 en í vetur hefur liðið verið í óvenjulegri stöðu og dregist talsvert aftur úr Mílanóliðunum tveimur sem eru í toppsætunum þegar 23 umferðir eru búnar af 38. Inter er með 53 stig, AC Milan 49 og Juventus 45 stig í þremur efstu sætunum en Juventus hefur þó sótt í sig veðrið undanfarnar vikur eftir að hafa verið neðar á töflunni framan af tímabilinu.

mbl.is