Magnað mark frá miðju er Tékkar skelltu Skotum

Patrik Schick fagnar stórglæsilegu öðru marki sínu í leiknum í …
Patrik Schick fagnar stórglæsilegu öðru marki sínu í leiknum í dag. AFP

Patrik Schick, framherji tékkneska landsliðsins í knattspyrnu, var hetja liðsins þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í sterkum 2:0-sigri gegn Skotlandi í D-riðli á Evrópumótinu í fótbolta á Hampden Park í Glasgow í dag. Síðara mark Schicks var stórfenglegt.

Heimamenn í Skotlandi byrjuðu af krafti og fékk John McGinn gott færi til þess að skora strax á 6. mínútu en skot hans fór af varnarmanni og aftur fyrir.

Schick minnti á sig eftir rúmlega stundarfjórðungs leik þegar David Marshall varði þrumuskot hans af um 20 metra færi laglega aftur fyrir.

Skömmu síðar potaði Lyndon Dykes boltanum framhjá markinu af stuttu færi eftir fyrirgjöf Andys Robertsons.

Eftir rúmlega hálftíma leik fékk fyrirliðinn Robertson svo gott skotfæri eftir sendingu frá Ryan Christie, náði þrumuskoti sem stefndi upp í fjærhornið en Tomás Vaclík náði að slæma fingurgómunum í boltann og verja aftur fyrir.

Á 42. mínútu komust Tékkarnir hins vegar yfir. Vladimír Coufal átti þá fyrirgjöf frá hægri í kjölfar þess að Skotar hreinsuðu hornspyrnu frá, þar stökk Schick manna hæst og skallaði boltann hnitmiðað niður í bláhornið fjær.

Staðan orðin 1:0, sem voru hálfleikstölur.

Síðari hálfleikur fór afar fjörlega af stað þar sem Schick átti skot sem Marshall varði út. Vladimír Darida náði frákastinu en Marshall varði það líka.

Örskömmu síðar, á 48. mínútu, hljóp Vaclík langt út úr vítateig til þess að kýla fyrirgjöf Robertsons frá. Dykes náði boltanum og gaf á Jack Hendry sem tók gott skot sem sigldi yfir Vaclík en hafnaði í þverslánni.

Nokkrum mínútum eftir sláarskotið, á 52. mínútu, tvöfölduðu Tékkar forystu sína. Skotar töpuðu þá boltanum sem barst til Schicks sem var rétt kominn inn á vallarhelming Skota þegar hann sá Marshall standa allt of framarlega og hitti boltann fullkomlega, 2:0. Hnitmiðað skotið flaug yfir Marshall, sem náði ekki að skila sér á línuna í tæka tíð.

Markið magnaða sem Patrik Schick skoraði á leið í netið …
Markið magnaða sem Patrik Schick skoraði á leið í netið án þess að David Marshall komi vörnum við. AFP

Skotar héldu áfram að leita að marki þrátt fyrir að vera nokkuð slegnir. Eftir rúmlega klukkutíma leik átti Stuart Armstrong góðan sprett og náði flottu skoti sem fór af varnarmanni og endaði svo ofan á markinu.

Á 66. mínútu fékk Dykes dauðafæri til þess að minnka muninn. Hendry gaf þá fyrir á McGinn sem skallaði boltann til Dykes sem skaut í fyrsta af stuttu færi en Vaclík náði á einhvern ótrúlegan hátt að verja með hægri fæti.

Leikurinn, sem var búinn að vera afar fjörugur, róaðist nokkuð næsta stundarfjórðunginn.

Á 81. mínútu átti Schick skot úr fínu færi en það fór beint á Marshall.

Mínútu síðar komst Kevin Nisbet sömuleiðis í gott skotfæri eftir sendingu frá Che Adams en skot hans fór af varnarmanni og endaði í fangi Vaclíks.

Á 90. mínútu fékk Michael Krmencík dauðafæri til þess að skora þriðja mark Tékka en skalli hans af mjög stuttu færi glæsilega varinn af Marshall.

Á þriðju mínútu uppbótartíma náði Nisbet skalla af stuttu færi en hann fór af varnarmanni og aftur fyrir.

Þar við sat og tveggja marka sigur Tékka, sem byrja EM af miklum krafti, staðreynd.

Stuðningsmenn Skotlands gátu ekki leynt vonbrigðum sínum.
Stuðningsmenn Skotlands gátu ekki leynt vonbrigðum sínum. AFP
mbl.is