FH gæti mætt stórliði - Alfons á Hlíðarenda?

Matthías Vilhjálmsson gæti leikið gegn gömlu félögunum í Rosenborg.
Matthías Vilhjálmsson gæti leikið gegn gömlu félögunum í Rosenborg. mbl.is/Haukur Gunnarsson

FH mætir norska stórliðinu Rosenborg í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta, takist liðinu að vinna Sligo Rovers frá Írlandi í 1. umferðinni. Dregið var í höfuðstöðvum UEFA í dag.

Hólmar Örn Eyjólfsson er leikmaður Rosenborg og þeir Árni Gautur Arason, Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Þórarinsson hafa einnig leikið með liðinu. Matthías er núverandi leikmaður FH. 

Nái Breiðablik að vinna Rac­ing FC Uni­on Lúx­em­borg í 1. umferð mætir Kópavogsliðið Austria Wien frá Austurríki í 2. umferð. Þá spilar Stjarnan við Dudelange frá Lúxemborg, takist liðinu að slá út Bohemian frá Írlandi.

Íslandsmeistarar Vals mæta annaðhvort Bodø/​Glimt frá Noregi eða Legia frá Varsjá í Póllandi í 2. umferð Sambandsdeildarinnar, tapi Valsmenn fyrir Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni.

Alfons Sampsted er leikmaður Bodø/​Glimt.
Alfons Sampsted er leikmaður Bodø/​Glimt. Ljósmynd/Jon Forberg

Alfons Sampsted er leikmaður Bodø/​Glimt, sem vann norsku deildina óvænt sannfærandi á síðustu leiktíð. Birkir Bjarnason, Anthony Karl Gregory, Hannes Þór Halldórsson, Kristján Jónsson og Oliver Sigurjónsson hafa einnig leikið með liðinu. 

Tapi Rúnar Már Sigurjónsson og félagar hans hjá rúmenska liðinu Cluj gegn Borac Banja Luka frá Bosníu í Meistaradeildinni mæta þeir Zalgiris Vilnius frá Litháen eða Linfield frá Norður-Írlandi í Sambandsdeildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert