Auðvelt hjá Brasilíu – Venesúela hélt Kólumbíu í skefjum

Richarlison fagnar marki sínu í gærkvöldi ásamt liðsfélögunum í Brasilíu.
Richarlison fagnar marki sínu í gærkvöldi ásamt liðsfélögunum í Brasilíu. AFP

Brasilía átti ekki í neinum vandræðum með Perú í annarri umferð B-riðils Ameríkubikarsins í knattspyrnu, Copa America, í gærkvöldi. Þá gerðu Kólumbía og Venesúela markalaust jafntefli í riðlinum í nótt.

Alex Sandro, vinstri bakvörður Juventus, kom gestgjöfunum í Brasilíu í forystu strax á 12. mínútu leiksins eftir sendingu frá Gabriel Jesus, framherja Manchester City.

Þrátt fyrir að vera við stjórn allan leikinn kom annað mark heimamanna ekki fyrr en á 68. mínútu, þegar stórstjarnan Neymar skoraði eftir sendingu Freds, leikmanns Manchester United.

Seint í leiknum gerðu Brasilíumenn svo endanlega út um leikinn. Éverton Ribeiro, vængmaður Flamengo, skoraði á 89. mínútu eftir stoðsendingu frá Richarlison, samherja Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.

Richarlison skoraði að endingu sjálfur fjórða markið á þriðju mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

4:0 sigur staðreynd og Brasilíumenn eru þar með fullt hús stiga, 6 talsins, eftir fyrstu tvær umferðirnar og eru einir á toppi B-riðils.

Í leik Kólumbíu og Venesúela réðu Kólumbíumenn lögum og lofum í grófum leik.

Vængbrotið lið Venesúela barðist hins vegar hetjulega, en liðið þurfti að kalla inn 15 nýja leikmenn örfáum dögum fyrir fyrsta leik sinn í bikarnum gegn Brasilíu.

Sá leikur tapaðist en í nótt náðu Venesúelamenn að næla sér í stig. Fengu þeir fimm gul spjöld og skutu aðeins tvisvar að marki.

Kólumbíumenn áttu hins vegar 21 skot að marki en inn vildi boltinn ekki. Einhvers pirrings hefur gætt hjá þeim vegna þess og fékk Luis Díaz beint rautt spjald fyrir ljótt brot á fjórðu mínútu uppbótartíma.

0:0 jafntefli varð niðurstaðan og Kólumbía er þar með í öðru sæti B-riðils með 4 stig eftir tvo leiki. Venesúela er í þriðja sætinu með 1 stig.

mbl.is