Argentína marði Úrúgvæ

Guido Rodríguez fagnar sigurmarki sínu í nótt.
Guido Rodríguez fagnar sigurmarki sínu í nótt. AFP

Argentína vann í nótt góðan 1:0 sigur gegn nágrönnum sínum í Úrúgvæ í öðrum leik A-riðils Ameríkubikarsins í knattspyrnu karla, Copa America. Sigurmarkið kom úr nokkuð óvæntri átt snemma leiks.

Varnartengiliðurinn Guido Rodríguez skoraði sitt fyrsta mark fyrir landsliðið á 13. mínútu leiksins og reyndist það eina mark leiksins. Rodríguez skoraði með góðum skalla eftir laglega fyrirgjöf Lionel Messi.

Sigurinn var að endingu verðskuldaður en Úrúgvæ skapaði sér lítið sem ekkert í leiknum þrátt fyrir að vera meira með boltann.

Argentínumenn voru hins vegar ávallt hættulegir þegar þeir sóttu og gátu hæglega bætt við marki eða mörkum.

1:0 sigur staðreynd Argentína er nú í öðru sæti A-riðils, þar sem liðið er með 4 stig eftir tvo leiki, líkt og Síle, sem vann einnig sinn leik 1:0, í gærkvöldi gegn Bólivíu.

Argentína og Síle gerðu 1:1 jafntefli í fyrsta leik mótsins og eru því hnífjöfn á toppi riðilsins. Þegar staðan er þannig er litið til prúðmennsku, þar sem Síle stendur ögn betur að vígi og er því í efsta sætinu.

mbl.is