Allt undir í lokaleikjunum – hverjir ná síðustu fjórum sætunum?

Cristiano Ronaldo og Toni Kroos komast að því í kvöld …
Cristiano Ronaldo og Toni Kroos komast að því í kvöld hvort þeirra lið, Portúgal og Þýskaland, komist í sextán liða úrslitin á EM. AFP

Í dag og kvöld skýrist hvaða fjögur lið það verða sem tryggja sér síðustu sætin í sextán liða úrslitum Evrópukeppni karla í fótbolta en þá fara fram lokaumferðir E- og F-riðla.

Ítalía, Belgía, Holland og England eru komin áfram sem sigurlið riðla A, B, C og D.

Wales, Danmörk, Austurríki og Króatía eru komin áfram í öðru sæti þessara riðla.

Svíþjóð og Frakkland eru örugg áfram en það ræðst í dag í hvaða sætum þau enda í sínum riðlum.

Sviss og Tékkland eru komin áfram með bestan árangur í þriðja sæti.

Úkraína og Finnland enduðu í þriðja sæti í sínum riðlum, fengu 3 stig hvort, og bíða þess sem gerist í E- og F-riðlunum í kvöld, hvort liðin sem verða í þriðja sæti þar nái betri árangri en þau eða ekki.

Í E-riðli er Svíþjóð með 4 stig, Slóvakía 3, Spánn 2 og Pólland eitt stig. Slóvakía mætir Spáni og Svíþjóð mætir Póllandi en báðir leikirnir hefjast klukkan 16.

Þarna eru margir möguleikar fyrir hendi og í raun geta öll liðin endað í hvaða sæti sem er, nema hvað Svíar verða aldrei neðar en í þriðja sæti og fara þá örugglega áfram. 

Pólverjar verða að vinna Svía og þá fara þeir áfram, sama hvað gerist í leik Slóvakíu og Spánar. Þar nægir Slóvökum jafntefli en þá yrðu Spánverjar neðstir ef Pólverjar vinna Svía.

Í F-riðli er Frakkland með 4 stig, Þýskaland 3, Portúgal 3 og Ungverjaland eitt stig. Frakkar mæta Portúgölum og Þjóðverjar mæta Ungverjum en báðir leikirnir hefjast klukkan 19.

Öll liðin nema Ungverjar geta unnið riðilinn og öll liðin nema Frakkar geta endað í neðsta sæti. Ungverjar fara áfram ef þeir vinna Þjóðverja og Portúgal nægir jafntefli gegn Frakklandi. Þjóðverjar þurfa stig gegn Ungverjum.

En síðan eiga liðin eftir að raðast saman í sextán liða úrslitunum og enn sem komið er eru bara tvær viðureignir þar komnar á hreint:

Ítalía  Austurríki í London 26. júní
Wales  Danmörk í Amsterdam 26. júní

Aðrir leikir líta þannig út núna:

Belgía  3AEF (Sviss)
1F (Frakkland)  3AC (Úkraína)
Króatía  2E (Slóvakía)
1E (Svíþjóð)  3BCD (Tékkland)
England  2F (Þýskaland)
Holland  3DF (Portúgal)

mbl.is