Kjær heiðraður sérstaklega í París

Simon Kjær og eiginkona hans Elina Gollert á hátíðinni í …
Simon Kjær og eiginkona hans Elina Gollert á hátíðinni í París í kvöld. AFP

Simon Kjær, miðvörður AC Milan og danska landsliðsins í knattspyrnu, var heiðraður sérstaklega í París í kvöld þegar France Football hélt verðlaunahóf  sitt vegna Gullboltans, Ballon D'Or.

Kjær fékk sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt á Parken í Kaupmannahöfn í sumar þegar liðsfélagi hans Christian Eriksen hneig niður og fór í hjartastopp í miðjum leik Dana og Finna í lokakeppni Evrópumótsins.

Kjær sýndi þar mikla leiðtogahæfileika við erfiðar aðstæður og hughreysti meðal annars eiginkonu Eriksens á vellinum.

Sjálfur hafnaði Kjær í 18. sæti í kosningunni á besta knattspyrnumanni heims en hann var í lykilhlutverki bæði hjá AC Milan og danska landsliðinu á árinu.

Simon Kjær hughreystir Sabrinu Kvist Jensen, eiginkonu Christians Eriksens, á …
Simon Kjær hughreystir Sabrinu Kvist Jensen, eiginkonu Christians Eriksens, á Parken í sumar. AFP
mbl.is