Liverpool áfram með fullt hús – Atlético tók annað sætið

Mo Salah jafnar í 1:1 í kvöld.
Mo Salah jafnar í 1:1 í kvöld. AFP

Liverpool vann sanngjarnan 2:1-útisigur á AC Milan í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Enska liðið vann alla sex leiki sína í riðlakeppninni og hafði mikla yfirburði í riðlinum.

Enski varnarmaðurinn Fikayo Tomori kom AC Milan yfir á 29. mínútu með mark eftir hornspyrnu en sjö mínútum síðar jafnaði Mo Salah er hann fylgdi á eftir skoti frá Alex Oxlade-Chamberlain og var staðan í hálfleik 1:1.

Liverpool komst yfir á tíundu mínútu seinni hálfleiks er Divock Origi skoraði. Líkt og í markinu hjá Salah var Origi fyrstur að átta sig eftir að Mike Maignan í marki AC Milan varði, þá eftir skot frá Sadio Mané. Milan ógnaði lítið eftir markið og Liverpool sigldi sanngjörnum sigri í hús.

Atlético Madríd tryggði sér annað sæti riðilsins með 3:1-útisigri á Porto. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Antoine Griezmann gestunum yfir. Þegar 20 mínútur var eftir sauð upp úr og Yannick Carrasco hjá Atlético og Wendell hjá Porto fengu báðir rautt spjald.

Atlético kunni betur við sig tíu gegn tíu því Ángel Correa bætti við marki á 90. mínútu og Rodrigo de Paul skoraði þriðja markið í uppbótartíma. Sérgio Oliveira lagaði stöðuna fyrir Porto með marki úr víti á sjöttu mínútu uppbótartímans og þar við sat. Porto hafnar í þriðja sæti og fer í Evrópudeildina.

Antoine Griezmann kom Atlético Madríd á bragðið.
Antoine Griezmann kom Atlético Madríd á bragðið. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

AC Milan 1:2 Liverpool opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is