Íslandsmeistari samdi í Bandaríkjunum

Mary Alice Vignola skoraði tvö mörk í úrvalsdeildinni í sumar …
Mary Alice Vignola skoraði tvö mörk í úrvalsdeildinni í sumar fyrir Val. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnukonan og Íslandsmeistarinn Mary Alice Vignola er gengin til liðs við Angel City í bandarísku atvinnumannadeildinni. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í vikunni.

Vignola, sem er 23 ára gömul, var í lykilhlutverki með Val í sumar þegar liðið varð Íslandsmeistari en hún lék alla 18 leiki liðsins í úrvalsdeildinni þar sem hún skoraði tvö mörk.

Tímabilið 2020 lék hún með Þrótti úr Reykjavík í úrvalsdeildinni þar sem hún skoraði sex mörk í tólf leikjum.

Angel City er nýtt lið í bandarísku atvinnumannadeildinni en mörg þekkt nöfn eru í eigandahóp félagsins. Þar ber hæst að nefna tenniskonuna Serenu Williams og leikkonuna Natalie Portman.

Félagið er staðsett í Los Angeles og er fyrsta liðið frá borginni sem keppir í atvinnumannadeildinni frá því Los Angeles Sol gerði það árið 2010.

mbl.is