Þetta var þroskuð frammistaða

Höskuldur með boltann í leik kvöldsins. Adam Ægir Pálsson er …
Höskuldur með boltann í leik kvöldsins. Adam Ægir Pálsson er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var að vonum sáttur eftir 4:1-sigur sinna manna gegn Keflavík í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Ég er bara mjög sáttur með lang stærsta hluta leiksins. Taugarnar eru alltaf aðeins meira þandar en vanalega í fyrsta leik svo mér fannst við bara byrja hrikalega vel. Þetta var þroskuð frammistaða. Þeir koma flottir inn í seinni hálfleik, setja aðeins meiri þrýsting á okkur og við vorum búnir að gefa rosalega mikið í fyrri hálfleikinn, svo eftir á hefðum við geta verið aðeins klókari í að stjórna orkunni. Að því sögðu erum við að verjast fínt þó þeir séu með meiri kraft. Ég er 99 prósent sáttur.“

Fyrri hálfleikurinn var algjör eign Breiðabliks sem hefði hæglega getað skorað meira en þrjú mörk.

„Þetta minnir okkur bara á að virða hvert færi sem við fáum. Við verðum að vera miskunnarlausir og nýta okkur það ef leikurinn býður upp á það að fara stærra. Við skorum samt alveg fjögur mörk, en hefðum vissulega getað skorað fleiri.“

Margir spá Breiðabliki Íslandsmeistaratitlinum í ár.

„Það er einn tuttugasti-og-sjöundi búinn af mótinu svo það er bara þetta gamla góða, við tökum einn leik í einu. Þetta byrjar nokkuð rólega, það eru sex dagar í næsta leik á móti KR. Það verður hörkuleikur í Frostaskjólinu, öðruvísi leikur en í dag, ekki á spegilsléttu gervigrasi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert