Lést aðeins 29 ára

Jody Lukoki í leik með Ludogorets Razgrads í Meistaradeild Evrópu …
Jody Lukoki í leik með Ludogorets Razgrads í Meistaradeild Evrópu á sínum tíma. AFP/Fabrice Caffarini

Knattspyrnumaðurinn Jody Lukoki er látinn aðeins 29 ára að aldri. Lukoki ólst upp hjá hollenska stórveldinu Ajax og var síðast á mála hjá Twente í hollensku efstu deildinni.

Dánarorsök er ókunn að svo stöddu en aðilar nákomnir Lukoki hafa staðfest fráfall hans.

Lukoki, sem lék sem vængmaður og sóknarmaður, þótti mikið efni þegar hann braut sér leið inn í aðallið Ajax ungur að árum og vann hollensku deildina þrjú ár í röð frá 2011 til 2013.

Á ferlinum lék hann með Cambuur, Zwolle og nú síðast Twente í heimalandinu en einnig um skeið með Ludogorets Razgrad í Búlgaríu og Yeni Malatyaspor í Tyrklandi.

Lukoki hafði ekkert náð að spila með Twente á tímabilinu eftir að hafa meiðst illa á hné í upphafi yfirstandandi tímabils en var á batavegi.

Hann lék með yngri landsliðum Hollands en skipti svo um ríkisfang og lék þrjá A-landsleiki fyrir Alþýðulýðveldið Kongó, þar sem hann fæddist, og skoraði í þeim eitt mark.

mbl.is