Enskur knattspyrnumaður kominn út úr skápnum

Jake Daniels er efnilegur framherji.
Jake Daniels er efnilegur framherji. Ljósmynd/Blackpool

Jake Daniels, 17 ára framherji enska B-deildarliðsins Blackpool í knattspyrnu karla, hefur tilkynnt það opinberlega að hann sé samkynhneigður og er þar með annar spilandi atvinnumaðurinn í knattspyrnu sem er kominn út úr skápnum.

Hinn er Josh Cavallo, vinstri bakvörður Adelaide United í áströlsku A-deildinni, sem gaf það opinberlega út að hann væri samkynhneigður í október á síðasta ári. Fleiri knattspyrnumenn hafa komið út úr skápnum í gegnum tíðina en flestir hafa tilkynnt um það eftir að þeir hafa hætt knattspyrnuiðkun.

„Þetta tímabil hefur verið stórkostlegt fyrir mig á vellinum. Ég spilaði minn fyrsta leik fyrir aðalliðið, skoraði 30 mörk fyrir ungmennaliðið, skrifaði undir minn fyrsta atvinnumannasamning og átti góðu gengi að fagna með liðsfélögum mínum þar sem við komumst á gott skrið í ensku unglingabikarkeppninni og hrósuðum sigri í Lancashire-unglingabikarkeppninni.

En utan vallar hef ég verið að fela það hver ég er í raun og veru. Ég hef vitað það alla mína ævi að ég sé samkynhneigður og nú líður mér sem ég sé reiðubúinn að koma út úr skápnum og vera ég sjálfur,“ skrifaði Daniels í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Blackpool.

„Nú stíg ég á ókunnugar slóðir, verandi einn af fyrstu knattspyrnumönnunum í þessu landi til að varpa ljósi á kynhneigð mína en leikmenn eins og Josh Cavallo og Matt Morton [spilandi þjálfari utandeildarliðsins Thetford Town á Englandi] hafa veitt mér innblástur, auk íþróttamanna úr öðrum íþróttum á við Tom Daley [ólympíumeistari í dýfingum], til þess að finna hjá mér hugrekki og áræðni í að hjálpa til við að koma breytingum á fót,“ bætti hann við.

Daniels, sem er fyrsti breski atvinnumaðurinn sem kemur út úr skápnum síðan Justin Fashanu gerði það árið 1990, sagðist hafa fengið frábæran stuðning hvaðanæva að og þar á meðal frá liðsfélögum sínum í unglingaliði Blackpool.

„Ég hef hatað það að ljúga alla mína ævi og finnast ég þurfa að breyta mér til þess að passa inn. Ég vil sjálfur vera fyrirmynd með því að gera þetta.

Það eru manneskjur þarna úti sem eru í sömu aðstæðum og ég sem líður ekki örugglega með að opinbera kynhneigð sína.

Við þær vil ég segja að þú þarft ekki að breyta því hver þú ert, eða hvernig þú ættir að vera, bara til þess að passa inn. Það að þú sért þú sjálfur og að vera hamingjusamur er það skiptir mestu máli,“ skrifaði hann einnig.

mbl.is