Leikmenn Lyon og Barcelona einoka lið tímabilsins

Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Evrópumeistaratitlinum með Lyon á laugardaginn.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar Evrópumeistaratitlinum með Lyon á laugardaginn. AFP/Marco Bertorello

Sex leikmenn nýkrýndra Evrópumeistara Lyon, sem Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með, og fjórir leikmenn Barcelona, sem tapaði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Frakklandsmeisturunum um helgina, eru í úrvalsliði tímabilsins sem UEFA hefur valið.

Alexia Putellas, vængmaður Barcelona, var valin besti leikmaður tímabilsins í Meistaradeildinni og Selma Bacha, vinstri bakvörður Lyon, var valin besti ungi leikmaðurinn.

Eini leikmaðurinn sem komst í úrvalsliðið og er ekki á mála hjá Lyon eða Barcelona var Marie-Antoinette Katoto, sóknarmaður Parísar Saint-Germain.

Úrvalslið Meistaradeildar Evrópu samkvæmt UEFA:

Markvörður:

Christiane Endler (Lyon)

Varnarmenn:

Griedge Mbock Bathy (Lyon)

Wendie Renard (Lyon)

Mapi León (Barcelona)

Selma Bacha (Lyon)

Miðjumenn:

Aitana Bonmatí (Barcelona)

Patri Guijarro (Barcelona)

Amandine Henry (Lyon)

Alexia Putellas (Barcelona)

Sóknarmenn:

Ada Hegerberg (Lyon)

Marie-Antoinette Katoto (París Saint-Germain)

Mark tímabilsins skoraði Amandine Henry, miðjumaður Lyon sem er í úrvalsliðinu. Það kom einmitt í úrslitaleiknum gegn Barcelona á laugardaginn þegar hún kom Lyon á bragðið snemma leiks með bylmingsskoti af mjög löngu færi sem söng uppi í fjærhorninu.

Tíu bestu mörk Meistaradeildarinnar á nýafstöðnu tímabili má sjá á vefsíðu UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert