Gareth Bale ekki 100%

Gareth Bale í leik með Los Angeles á tímabilinu en …
Gareth Bale í leik með Los Angeles á tímabilinu en hann kom þaðan frá Real Madrid. AFP/Patrick T. Fallon

Gareth Bale var ekki með í öðrum leik sínum í röð á tímabilinu með Los Angeles í MLS deildinni í Bandaríkjunum í nótt. Hann missti af leik liðsins gegn Wayne Rooney og Guðlaugi Victor Pálssyni í DC United.

Bale hefur skorað tvisvar sinnum í fjórum leikjum sem hann hefur komið inn á fyrir Los Angeles síðan að hann kom til Bandaríkjanna frá Real Madrid í sumar.

„Hann hefur ekki verið 100%. Við erum að halda áfram og ég held að eymsli og verkir séu eðlilegir á miðju undirbúningstímabili,“ sagði Steve Cherundolo, þjálfari Los Angeles um Bale.

Liðið er í miðju keppnistímabili en Bala og Giorgio Chiellini, sem kom frá Juventus til félagsins í sumar, eru að að æfa eins og þeir séu á undirbúningstímabili.

„Að fá líkamann þinn í stand til þess að spila 90 mínútur í hverri viku á miðju keppnistímabili er erfitt og stundum koma lítil bakslög,“ sagði Cherundolo.

Bale er fyrirliði velska landsliðsins og mun keppa með þeim á HM í nóvember þar sem fyrsti leikur liðsins er gegn Bandaríkjunum.

mbl.is