Hver og einn gerir upp við sig hvort hann horfi - það mun ég gera

Indonesíksur fótboltaaðdáandi fyrir framan niðurtalningarklukkuna fyrir HM í Doha.
Indonesíksur fótboltaaðdáandi fyrir framan niðurtalningarklukkuna fyrir HM í Doha. AFP/ Anne-Christine Poujoulat

Sem mótsstjóri Evrópumótsins 2024 hitti ég margt fólk úr hinni gríðarstóru fótboltakreðsu í Þýskalandi. Þar á meðal eru börn klædd í treyjur, sem ég sit fyrir með á sjálfum, yngri flokka þjálfarar sem kenna leikmönnum reglurnar og forsvarsmenn smærri félaga sem hafa unnið óeigingjarnt sjálfboðastarf um áratuga skeið. Allt þetta fólk elskar leikinn og ljósið sem hann gefur frá sér, veit hvað hann getur kennt okkur og kann að meta mikilvægi hans fyrir samfélag okkar.

Þegar samtalið berst að Katar, breytist tónninn, verður alvarlegri. Margir sjá fyrir sér að missa af heimsmeistaramóti af fúsum og frjálsum vilja í fyrsta sinn. Eitt sinn var heimsmeistaramótið sannkölluð þjóðhátíð, eins konar fótboltaleg skuldbinding fyrir börn fyrir lífstíð. Í dag hugsa sum áhugamannafélög um að leyfa veisluborðum og breiðtjöldum að safna ryki í geymslurýmum í nóvember og desember.

Að velja Katar voru mistök

Því er augljóst fyrir mér, enn og aftur: Að velja Katar sem gestgjafa heimsmeistaramótsins voru mistök. Það á ekki heima þar.

Aðferðafræði FIFA við val á gestgjafa mótsins var annmörkum háð. Það var óvenjulegt að útdeila tveimur mótum samtímis í fyrsta sinn. Katar og Rússland urðu fyrir valinu, þrátt fyrir harða samkeppni. Fresta þurfti mótinu frá sumri til veturs. Hitinn í eyðimörkinni hafði ekki verið tekinn með í reikninginn í fyrstu, þó að innanhússkýrsla FIFA hafi varað við honum og bent á aðra annmarka á Katar sem gestgjafa mótsins.

Aðrar ástæður hljóta að hafa ráðið úrslitum í desember árið 2010. Næstum allir hinna 24 kjörnu fulltrúa FIFA voru síðar settir af, refsað eða sóttir til saka; tveir höfðu þá þegar verið settir í bann. Með Katar, hefur FIFA skaða fótboltann og trúverðugleika sinn sem vestrænt samband og alþjóðleg stofnun.

Kylian Mbappe kyssir heimsmeistarastyttuna eftir sigur Frakklands á Króatíu í …
Kylian Mbappe kyssir heimsmeistarastyttuna eftir sigur Frakklands á Króatíu í Rússlandi 2018. AFP/Franck Fife

Annar lærdómur frá Katar: Í framtíðinni skulu mannréttindi vera ómissandi viðmið þegar kemur að stórum íþróttaviðburðum. Katar hefur sannarlega gert úrbætur með því að fullgilda nokkra samninga samkvæmt alþjóðalögum og innleiða lágmarkslaun í landinu í kjölfar gagnrýni frá stuðningsmönnum og umfjöllun í fjölmiðlum. Samkynhneigðir eru þó enn álitnir glæpamenn, konur eiga ekki sama rétt og karlar og tjáningarfrelsinu eru settar þröngar skorður.

Aðstæður farandverkamanna, sem þakka má að heimsmeistaramótið verði haldið, hafa verið hrikalegar. Dauði þeirra var bæði samþykktur og ekki rannsakaður til hlýtar. Fjölskyldur þeirra fengu ekki sanngjarnar bætur. Þetta segja sérfræðingar í mannréttindum hjá Friedrich Naumann stofnuninni. Katar hefur viðurkennt misnotkunina.

Heimsmeistaramótið í Katar mun kosta að minnsta kosti 150 milljarða dollara, samkvæmt Forbes, sem er um tíu sinnum meira en dýrasta heimsmeistaramótið til þessa, í Rússlandi, gerði árið 2018. Nú í landi á stærð við Kosovo með færri íbúa en Berlín eru átta ofurnútímalegir, loftkældir leikvangar. Það er engin fótboltamenning sem hefur hag af þessu en oft mæta ekki einu sinni þúsund áhorfendur á leiki í atvinnumannadeildinni í Katar. Fótbolti er ekki vinsæl áhugamannaíþrótt og það eru engin tækifæri fyrir stúlkur að sparka í bolta. Þetta er einnig skilgreining á fótboltamóti sem ekki telst sjálfbært.

Katar hefur aldrei komist á lokakeppni HM

Sú nálgun að halda heimsmeistamótið á nýju svæði er rétt. Árið 2010 var mótið haldið í Afríku í fyrsta sinn. Ég ferðaðist til Suður-Afríku sem leikmaður til þess að kynnast gestgjafaþjóðinni og aðstæðunum sem ég myndi leika við. Heimsmeistaramót hefði vel getað stuðlað að jákvæðri breytingu á fótboltamenningu í Miðausturlöndum, því þar er að finna þjóðir með fótboltahefð.

Ef þú útvíkkar þá hugmynd til hins alls arabískumælandi heims: Marokkó og Alsír. Þýskaland lék við Marokkó á HM 1970 og Þýskaland tapaði fyrir Alsír á HM 1982. Áður en við urðum heimsmeistarar árið 2014, þurftum við framlengingu til að leggja Alsír í 16-liða úrslitum. Leikurinn í Porto Alegre var eins og útileikur, svo margir voru alsírsku stuðningsmennirnir. Katar hefur aldrei komist á lokakeppni HM.

Engu að síður, varð þetta litla land fyrir valinu sem gestgjafi í fyrstu tilraun til þess. Nú þurfa margir stuðningsmenn frá öllum heimshornum að dvelja í nálægum löndum og ferðast til og frá leikstöðum. Á leikvöngunum verða áhrifavaldar sem fengið hafa greitt fyrir að skapa stemninguna og umtalið á samfélagsmiðlum.

Þetta andrúmsloft vekur ekki áhuga minn sem fótboltaaðdáanda. Ég hefði aðeins flogið til Katar ef starf mitt sem mótsstjóri hefði krafist þess. Þar sem raunin er önnur mun ég sitja heima.

Philipp Lahm hampar heimsmeistarastyttunni á HM 2014 í Brasilíu með …
Philipp Lahm hampar heimsmeistarastyttunni á HM 2014 í Brasilíu með liðsfélögum sínum í þýska landsliðinu. Ljósmynd/AFP

Í sumum löndum hafa lið verið beðin að sniðganga mótið. Það verður hver og einn að gera upp við sig. Mér finnst rétt að Þýskaland taki þátt og ég myndi fagna því ef við yrðum heimsmeistarar. Katar er efnahagslegur samstarfsaðili og orkuveitir Vesturlanda. Þýskaland er í diplómatískum samskiptum við Katar og ákvörðunin var tekin fyrir tólf árum.

Hver og einn verður að gera upp við sig hvort hann horfi á leikina í sjónvarpi. Það mun ég gera, þýska landsliðið er mikilvægt. Evrópumótið 2024 í Þýskalandi veltur á frammistöðu þess. Ef mótið á að heppnast vel þarf liðið að gera betur í Katar en á síðustu tveimur heimsmeistaramótum.

Ég mun kveikja á sjónvarpinu þegar úrslitaleikurinn fer fram í Doha. Í grundvallaratriðum er heimsmeistaramótið frábær viðburður. Frá íþróttalegu sjónarmiði er mót milli þjóða óútreiknanlegra með fleiri lið sem eiga möguleika á titli en í Meistaradeild Evrópu og í mörgum landsdeildum þar sem samkeppni er nánast við frostmark. Aðstæður í Katar gætu leitt til óvæntra úrslita. Takturinn er annar, mótið fer fram á miðju keppnistímabili og liðin hafa nær engan tíma til undirbúnings.

Fótboltaaðdáendur veifa fánum í Cherupuzha ánni í Indlandi við gríðarstórar …
Fótboltaaðdáendur veifa fánum í Cherupuzha ánni í Indlandi við gríðarstórar pappamyndir af Neymar, Ronaldo og Messi. Ljósmynd/AFP

Það er vel hugsanlegt að Suður-Ameríka muni koma til baka. Kannski mun Afríkuþjóð sigra stóra knattspyrnuþjóð eða lítil Evrópuþjóð komast alla leið í úrslitaleikinn líkt og Króatía gerði árið 2018. Lionel Messi og Cristiano Ronaldo munu stíga út úr alþjóðlega sviðsljósinu. Ný stjarna kann að fæðast.

Það þarf ekki endilega að vera mótsögn að efast um pólitíkina í kringum heimsmeistaramótið og halda það samt sem áður hátíðlegt. Það eru ekki svik við okkar eigin gildi að hitta vini í bjór og tala hressilega um fótbolta og hvað annað. Spurningin er hvort þetta heimsmeistaramót verði það stóra. Það er vetur og mannréttindi eru ekki óumsemjanleg í landi gestgjafanna.

Það er mannleg þörf að koma saman. Heimsmeistaramót er einnig samfélagsupplifun meðal fólks sem hugsar í sömu átt. Í þeim sérstöku aðstæðum sem Evrópa er getur það eflt samstöðu okkar og seiglu.

Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is.
Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is. Ljósmynd/Philippe Arlt

Phil­ipp Lahm var fyr­irliði þýska landsliðsins í knatt­spyrnu þegar það varð heims­meist­ari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er móts­stjóri Evr­ópu­móts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistl­ar hans, „Mitt sjón­ar­horn“, birt­ast reglu­lega í Morg­un­blaðinu og/​eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í sam­vinnu við Oli­ver Fritsch, íþrótta­rit­stjóra þýska net­miðils­ins Zeit On-line, og birt­ast í fjöl­miðlum nokk­urra Evr­ópu­landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert