Sveindís og stöllur sóttu stig til Ítalíu

Sveindís Jane Jónsdóttir lék síðari hálfleikinn fyrir Wolfsburg í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék síðari hálfleikinn fyrir Wolfsburg í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

AS Roma og Wolfsburg skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í kvöld.

Valentina Giacinti kom Roma yfir strax í upphafi leiks áður en Ewa Pajor jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn á sem varamaður í leikhléi og lék allan síðari hálfleikinn.

Mörkin urðu þó ekki fleiri og jafntefli niðurstaðan í Rómarborg, en Roma er á toppnum í ítölsku A-deildinni sem stendur.

Wolfsburg og Roma eru því áfram jöfn að stigum í efstu tveimur sætum riðilsins, bæði með 7 stig en Wolfsburg í efsta sæti með betri markatölu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sat allan tímann á varamannabekknum þegar lið hennar París Saint-Germain vann öruggan 5:0-sigur á Vllaznia í A-riðlinum.

Í hinum leik riðilsins vann Chelsea góðan 2:0-sigur á Real Madríd.

Chelsea er með fullt hús stiga á toppi riðilsins og PSG og Real Madríd koma þar á eftir, bæði með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert