Arsenal býður metupphæð í leikmann United

Alessia Russo í leik með enska landsliðinu.
Alessia Russo í leik með enska landsliðinu. AFP/Alex Halada

Kvennalið Arsenal í knattspyrnu hefur lagt fram tilboð í enska landsliðsframherjann Alessiu Russo, sem leikur með Manchester United. Tilboðið ku vera hærra en hæsta upphæð sem hefur verið greidd fyrir knattspyrnukonu.

BBC Sport greinir frá.

Russo, sem er 23 ára, varð Evrópumeistari með Englandi síðasta sumar og hafði skömmu áður hafnað nýju samningstilboði United.

Samningur hennar við Rauðu djöflana rennur út næstkomandi sumar og því gæti félagið freistast til þess að selja Russo fyrir lok janúargluggans til þess að forðast að missa hana frá sér án greiðslu eftir hálft ár.

Ekki síst þar sem tilboðið er hærra en 400.000 pundin sem Barcelona greiddi Manchester City fyrir ensku landsliðskonuna Keiru Walsh síðasta sumar, sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir knattspyrnukonu.

mbl.is