Birkir kominn aftur til Viking

Birkir Bjarnason er genginn aftur í raðir Viking.
Birkir Bjarnason er genginn aftur í raðir Viking. mbl.is/Unnur Karen

Birkir Bjarnason, leikjahæsti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er genginn í raðir norska úrvalsdeildarfélagsins Viking frá Stafangri á nýjan leik, ellefu árum eftir að hann yfirgaf félagið.

Birkir, sem er 34 ára gamall, skrifaði undir samning sem gildir út komandi tímabil í Noregi.

Síðast var miðjumaðurinn öflugi á mála hjá tyrkneska félaginu Adana Demirspor. Á yfirstandandi tímabili hefur Birkir verið í aukahlutverki hjá liðinu og fékk samningi sínum rift.

Hann hóf meistaraflokksferil sinn með Viking árið 2006 eftir að hafa flutt ungur að árum til Noregs. Þar lék hann út tímabilið 2011 þegar hann skipti til Standard Liege í Belgíu.

Þaðan lá leiðin til Pescara á Ítalíu og svo Sampdoria. Eftir að hafa snúið aftur til Pescara um skeið hélt Birkir til Basel, þar sem hann stóð sig svo vel að Aston Villa festi kaup á honum.

Eftir dvölina á Englandi var Birkir um stutta stund á mála hjá Al-Arabi í Katar en fór svo aftur til Ítalíu, að þessu sinni til Brescia, áður en leiðin lá til Tyrklands.

Birkir á að baki 113 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur skorað 15 mörk í þeim.

mbl.is