Hættur eftir að hafa gert Íslandi stóran greiða

Jaroslav Silhavy.
Jaroslav Silhavy. AFP/Michal Cizek

Jaroslav Silhavy hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Tékklands í knattspyrnu eftir fimm ár í starfi.

Silhavy, sem er 62 ára gamall, stýrði Tékkum til 3:0-sigurs gegn Moldóvu í E-riðli undankeppni EM 2024 í Olomouc í Tékklandi í gær en með sigrinum tryggðu Tékkar sér sæti í lokakeppninni í Þýskalandi næsta sumar.

Sigurinn þýddi jafnframt að Ísland fékk sæti í umspili Þjóðadeildarinnar fyrir lokakeppnina þar sem Ísrael, Wales eða Pólland verður mótherjinn en það skýrist betur þegar undankeppninni lýkur formlega í kvöld og þegar dregið verður í umspilinu á fimmtudag.

Pressan óskiljanleg

„Ég tilkynnti Petr Fouska, forseta knattspyrnusambandsins, frá ákvörðun minni fyrir leikinn,“ sagði Silhavy í samtali við BBC.

„Pressan var alltaf gríðarleg, stundum óskiljanleg ef svo má segja. Það er langt síðan ég tók þá ákvörðun um að stíga til hliðar að undankeppninni lokinni.

Ég geng sáttur frá borði og sé ekki eftir neinu,“ bætti Silhavy við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert