Ísland í umspil eftir sigur Tékka

Tékkar fagna marki Tomás Chorý í kvöld.
Tékkar fagna marki Tomás Chorý í kvöld. AFP/Michal Cizek

Ísland mun taka þátt í umspili um þrjú laus sæti á EM 2024 í knattspyrnu karla í mars næstkomandi. Þetta varð ljóst eftir að Tékkland tryggði sér sigur á Moldóvu í E-riðli í kvöld og um leið beint sæti á EM.

Fyrir leikinn þurfti Ísland að treysta á að Tékkland tapaði ekki leiknum. Tékkar gerðu gott betur og unnu 3:0.

Í leiknum í kvöld kom David Doudera heimamönnum í forystu eftir fjórtán mínútna leik.

Róður Moldóvu þyngdist töluvert þegar Vladislav Boboglo fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt snemma í síðari hálfleik.

Einum fleiri náðu Tékkar að tvöfalda forystuna. Það gerði Tomás Chorý á 72. mínútu.

Á 90. mínútu innsiglagði fyrirliðinn Tomás Soucek sigurinn og þriggja marka sigur var niðurstaðan.

Það skýrist á fimmtudag hverjum Ísland mætir í undanúrslitum umspilsins en mögulegir mótherjar eru þrír, Wales, Pólland og Ísrael.

Fyrir leiki kvöldsins hafði Albanía tryggt sér sæti á EM.

Í kvöld gerði liðið markalaust jafntefli við Færeyjar sem reyndist nóg til að tryggja sigur í E-riðlinum, á undan Tékkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert