Hélt í átta mánuði að HM-lágmarkinu væri náð

„Ég var ekki búin að kasta kúlu nokkuð lengi, tók tvær æfingar fyrir mótið og hefði nú þurft fleiri en þetta var bara mjög fínt,“ sagði spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir sem keppti fyrir Ísland í kúluvarpi í dag, í Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum, og náði 3. sæti.

Ásdís hafði náð 2. sætinu í spjótkasti í gær en þar náði hún sér þó ekki nægilega vel á strik að eigin sögn.

„Ég átti að gera mikið betur. Ég er að vinna í ákveðnum tæknihlutum sem ég náði bara ekki í gegn. Ég þarf að fara heim núna og vinna hörðum höndum að því að gera betur,“ sagði Ásdís.

Ásdís hélt lengi vel að Íslandsmetskast hennar á Ólympíuleikunum í fyrra hefði dugað henni til að komast á heimsmeistaramótið í Moskvu í ágúst, en komst að því í apríl að svo er ekki samkvæmt nýjum reglum. Hún er því í kapphlaupi við tímann að ná lágmarkinu fyrir þetta stærsta mót sumarsins en það er 60 metrar.

Rætt er við Ásdísi í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert