Stúlknasveit Íslands Evrópumeistari

Nýkrýndir Evrópumeistarar stúlkna í hópfimleikum. Eftir röð f.v.: Magnea Björg …
Nýkrýndir Evrópumeistarar stúlkna í hópfimleikum. Eftir röð f.v.: Magnea Björg Friðjónsdóttir, Sunna Hákonardóttir, Aníta Sól Tyrfingsdóttir, Ásta Kristinsdóttir, Hekla Mist Valgeirsdóttir, Tinna Ólafsdóttir, Eyrún Inga Sigurðardóttir. Neðri röð f.v.: Júlíana Hjaltadóttir, Birta Ósk Þórðardóttir, Gyða Einarsdóttir, Karitas Inga Jónsdóttir, Stella Einarsdóttir. mbl.is/Ívar

Stúlknalandslið Íslands varð rétt í þessu Evrópumeistari í hópfimleikum í Maribor í Slóveníu. Íslenska sveitin hafði yfirburði þegar dæmið var gert upp og öruggan sigur með 55.283 stigum fyrir greinarnar þrjár sem keppt var í.  Danir urðu í öðru sæti með  53.450 en þeir unnu í þessum flokki fyrir tveimur árum. Svíar hrepptu bronsverðlaun með 52.100 stig. 

Íslenska stúlknasveitin fékk hæstu einkunn sveitanna sex í úrslitum fyrir dans og trampólínstökk og varð í öðru sæti í dýnustökkum. Hún byrjaði keppnisdaginn á frábærum dansæfingum sem gáfu svo sannarlega tóninn fyrir það sem koma skyldi. 

Glæsilegur sigur hjá einbeittum og glæsilegum hópi keppenda og þjálfara sem hafa lagt nótt við nýtan dag síðutsu vikur og mánuði. Afraksturinn er gull á Evrópumeistaramóti. Fyrir tveimur árum hafnaði íslenska stúlknasveitin í þriðja sæti.

Sjá frétt mbl.is: Ólýsanlegt að heyra þjóðsönginn

Fylgst var með henni í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kl.16.43 Staðfest! Íslenska stúlknasveitin vinnur með yfirburðum og er Evrópumeistari. Til hamingju.

Kl. 16.36 Eftir að íslenska liðið fékk 16.950 fyrir trampólínstökkin getur ekkert nema danskt kraftaverk komið í veg fyrir að íslenska sveitin hljóti gullverðlaun. Danir þurfa að fá yfir 18 í dýnustökkunum í lokaumferðinni til þess að skjóta íslenska liðinu ref fyrir rass. Það gerist aldrei.

Kl.16.29 Íslenska stúlknalandsliðið hefur lokið trampólínstökkum sínum og hefur um leið lokið keppni á mótinu. Ég held að ekkert geti komið í veg fyrir að gullverðlaunin fari í hendur íslensku sveitarinnar eftir þennan frábæra dag í Lukna-íþróttahöllinni.

Kl. 16.10 Íslenska liðið fékk 16.550 fyrir dýnustökkin og hefur forystu eftir tvær greinar, hefur samtals 38.333. Bretar eru næstir með 34.333 og Norðmenn þriðju með 33.783. Svíar eiga dansinn eftir en Norðmenn eru búnir með hann. Danir ásamt Svíum eiga eftir að blanda sér í toppbaráttuna á lokasprettinum en staðan er þannig að það er ástæða til þess að vonast eftir silfri, jafnvel gulli áður en kvöldið er úti.

Kl. 16.02 Afar góð stökk á dýnunni. Ekkert fall. Ég er bjartsýnn og er ekki einn um það.

Kl. 15.39 Einkunnin fyrir dansinn liggur fyrir, 21.783, svo sannarlega mjög gott. 

Kl. 15.32 Hvað skal segja eftir þetta dansatriði hjá stúlkunum? Það var hreinlega magnað. Ég segi ekki meir. Bíð einkunnar.

Kl. 15.15 Keppnin er hafin. Íslenska sveitin hefur dansinn kl. 15.29.

Kl. 14.55 Íslenska sveitin verður fjórða í röðinni í hverri umferð en alls verða umferðirnar þrjár. Fyrsta grein íslenska liðsins verður dans. Í annarri umferð tekur við dýnustökk og loks trampólínstökk í lokin. Ég les vonandi rétt úr þeim gögnum sem fyrir liggja.

Kl. 14.42. Stúlknasveit Íslands er ein sex sveita sem keppir til úrslita í dag. Hún varð í öðru sæti í undankeppninni í fyrradag. Danir voru efstir og Svíar í þriðja sæti. Danska, íslenska og sænska sveitin báru þá höfuð og herðar yfir aðrar. Reiknað er með að svipað verði upp á teningnum í dag.

Kl. 14.40 Maður er rétt að ná áttum eftir dramatíkina hjá blandaða liðinu sem tryggði sér bronsverðlaun í blálokin þegar liðið fékk langhæstu einkunn liðanna fyrir dansinn.

Mynd af frábæru dansatriði stúlknalandsliðsins á EM í hópfimleikum í …
Mynd af frábæru dansatriði stúlknalandsliðsins á EM í hópfimleikum í dag. Ljósmynd/Steinunn Anna Svansdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert