Þetta var algjört æði

Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman, brosnverðlaunahafi á EM í hópfimleikum í …
Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman, brosnverðlaunahafi á EM í hópfimleikum í flokki blandaðra liða. mbl.is/Ívar

„Þetta var næstum fullkomið á gólfinu en niðurstaðan var fullkomin fyrir okkur. Það er bara eitt um hann að segja; negla!,“  sagði Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman einn liðsmanna blönduðu sveitar Íslands í hópfimleikum eftir að liðið vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Slóveníu í morgun.

„Þetta var algjört æði,“ sagði Kolbrún ennfremur en hún var eitt bros yfir árangrinum. „Þar sem við vorum fyrst í keppnisröðinni þá var biðin löng eftir niðurstöðunni því Bretar gátu náð okkur. Meðan við biðum úrslitanna þá héldumst við í hendur  og stressið var rosalegt. Loksins þegar einkunnin kom hjá Bretunum þá fögnuðum við rosalega. Það var geggjað. Liðsheildin var og er frábær.

Það gerir þessi verðlaun enn sætari að Ísland hefur aldrei unnið til verðlauna í þessum flokki og EM. Auk þess höfum við unnið svo lengi og mikið fyrir þessum árangri. Nú uppskerum við á hárréttum tíma. Þetta er frábært,“ sagði Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert