Mjög svekkjandi úrslit

Andrea Sif Pétursdóttir, silfurverðlaunahafi í hópfimleikum í kvennaflokki á EM …
Andrea Sif Pétursdóttir, silfurverðlaunahafi í hópfimleikum í kvennaflokki á EM 2016. mbl.is/Ívar

„Niðurstaðan er mjög svekkjandi,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðskona í fimleikum og liðsmaður íslenska landsliðsins sem vann til silfurverðlauna á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Maribor í Slóveníu í dag. Sáralítill munur var á íslenska og sænska liðinu sem stóð uppi sem Evrópumeistari.

„Við skemmtum okkur vel og stóðum okkur vel. Svona er í fimleikakeppni. Munurinn er oft lítill,“ sagði Andrea Sif. „Við komum sterkari til leiks eftir tvö ár.“

„Því miður þá náðum við ekki að vinna eins stefnt var að en við gefumst ekki upp. Það er alveg ljóst. Munurinn liggur í að við fengum sömu einkunn fyrir dansinn nú og síðast en við ætluðum að gera betur að þessu sinni. Ég hef svo ekki enn kynnt mér hvað fór úrskeiðis en ljóst er að eitthvað vantaði upp á hjá okkur. Svíar fengu hinsvegar mjög háa einkunn í dansinum og bættu sig mikið frá undankeppninni,“ sagði Andrea Sif ennfremur.

„Við reyndum allar okkar besta, þar við situr að þessu sinni og við verðum bara enn sterkari á EM eftir tvö ár,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, silfurverðlaunahafi í kvennaflokki á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum, í samtali við mbl.is eftir keppnina í Maribor í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert