Fanney keppir á EM

Kraftlyftingakona Fanney Hauksdóttir úr Gróttu.
Kraftlyftingakona Fanney Hauksdóttir úr Gróttu. mbl.is/Styrmir Kári

Fanney Hauksdóttir verður í eldlínunni á Evrópumeistaramótinu í klassískri bekkpressu í dag, en mótið er haldið í Ylitornio í Finnlandi.

Fanney keppir í 63 kg flokki, sem er fjölmennasti flokkur kvenna á þessu móti. Búist er við harðri baráttu um verðlaunasæti þar sem reiknað er með að Fanney verði til alls líkleg.

Fanney varð heimsmeistari í -63 kg flokki í klassískri bekkpressu í fyrra, en þá lyfti hún 105 kg og bætti jafnframt eigið Íslandsmet. Hún sló það svo aftur síðastliðið haust þegar hún stóð uppi sem Íslandsmeistari með 108 kg lyftu.

Fanney sló Íslands- og Norðurlandamet í bekkpressu með búnaði í vor er hún lyfti 157,5 kg. yrkill@mbl.is