Íslensk tengsl í Kristianstad rugla Svía

Elísabet Gunnarsdóttir tekur við verðlaununum sem þjálfari ársins í síðasta …
Elísabet Gunnarsdóttir tekur við verðlaununum sem þjálfari ársins í síðasta mánuði. Ljósmynd/Christine Olsson/TT

Það er blómlegt íþróttalíf hjá Íslendingum í sænska bænum Kristianstad – raunar svo að það ruglar Svíana í ríminu!

Sænska blaðið Expressen greinir frá skondnu atviki sem átti sér stað þegar Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í knattspyrnu, var valin þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. Blómvöndur sem senda átti heim til hennar rataði ekki rétta leið, heldur alnöfnu hennar sem einnig býr í bænum.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Alnafnan, Elísabet Gunnarsdóttir, er nefnilega unnusta Gunnars Steins Jónssonar sem leikur með handknattleiksliði Kristianstad. En íslensku tengingarnar halda áfram.

Þrír Íslendingar leika með handknattleiksliðinu; Gunnar Steinn, Arnar Freyr Arnarsson og fyrirliðinn Ólafur Guðmundsson. Unnusta Ólafs er Tinna Mark Antonsdóttir sem er sjúkraþjálfari hjá karlaliði Kristianstad í knattspyrnu. Bróðir Tinnu, Bjarni Mark Antonsson, leikur með liðinu og þjálfari þess er Atli Eðvaldsson.

Atli er faðir Sifjar Atladóttur, sem leikur með kvennaliði Kristianstad í knattspyrnu undir stjórn Elísabetar, og eiginmaður hennar er Björn Sigurbjörnsson sem er aðstoðarþjálfari liðsins. Þá er styrktarþjálfarinn einnig Íslendingur; Orri Sigurðsson.

Þá má geta þess að eiginmaður Elísabetar Gunnarsdóttur, það er að segja þjálfarans, heitir svo Gylfi Sigurðsson! Hann er umboðsmaður knattspyrnumanna og Expressen áréttar að það sé ekki sá sami og leikur með knattspyrnuliði Everton, svo því sé haldið til haga.

Það er því sennilega ekki að óþörfu sem Kristianstad, sem er um 40 þúsund manna bær, er með viðurnefnið litla-Ísland í umfjölluninni.

Gunnar Steinn Jónsson á unnustu sem heitir Elísabet Gunnarsdóttir, sem …
Gunnar Steinn Jónsson á unnustu sem heitir Elísabet Gunnarsdóttir, sem þjálfar þó ekki Kristianstad. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert