Bikarmótin eru langskemmtilegust

Tiana Ósk Whitworth á fleygiferð.
Tiana Ósk Whitworth á fleygiferð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægð, þetta tímabil er búið að vera strembið og ég hef ekki getað keppt eins mikið og ég hef viljað. Það er því ótrúlega gaman að geta komið hingað og hlaupið vel,“ sagði ÍR-ingurinn Tiana Ósk Whitworth í samtali við mbl.is eftir að hún kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi á bikarmótinu innanhúss í frjálsum íþróttum í Kaplakrika. 

Tiana var ekki á meðal keppenda á Meistaramótinu í Laugardalshöll fyrir tveimur vikum vegna meiðsla í læri. Hún er búin að jafna sig og hlakkar hún til að byggja sig upp fyrir sumarið.

„Ég er búin að vera með smá í lærinu og verið að fá krampa þegar ég hef verið að hlaupa og ég hleyp ekki nema mér líði 100% vel. Mér líður vel núna og ég er spennt að klára þetta mót og komast síðan í gott uppbyggingatímabil.“

Hún segir mót af þessu tagi vera þau skemmtilegustu á hverju tímabili. 

„Bikarmótin eru langskemmtilegust að mínu mati. Frjálsar eru mikil einstaklingsgrein en á bikarmótum er maður að keppa fyrir liðið og það er ótrúlega gaman að geta tekið þátt í bikar,“ sagði Tiana Ósk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka