HK vann fyrsta leikinn í einvíginu

Birkir Freyr Elvarsson, Þrótti Nes, sækir en Stefán Gunnar Þorsteinsson, …
Birkir Freyr Elvarsson, Þrótti Nes, sækir en Stefán Gunnar Þorsteinsson, HK, er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

HK er komið með frumkvæðið í einvígi sínu við Þrótt frá Neskaupstað í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki, en HK vann fyrstu viðureign liðanna 3:1 í Fagralundi í kvöld.

Um hörkuleik var að ræða þar sem HK vann fyrstu hrinu 25:23 og aðra hrinu 25:23. Með bakið uppi við vegg náðu Norðfirðingar að vinna þriðju hrinu eftir upphækkun 26:24 og halda leiknum áfram, en HK vann fjórðu hrinu 25:18 og leikinn 3:1.

Andreas Hilmir Halldórsson var stigahæstur hjá HK með 20 stig en hjá Þrótti var Miguel Mateo allt í öllu með 41 stig af 64. HK endaði í öðru sæti Mizuno-deild­ar­inn­ar í vet­ur með 29 stig en Þrótt­ur í þriðja sæt­inu með 21 stig, en liðin voru hnífjöfn í innbyrðis viðureignum í deildinni.

Næsti leikur liðanna í einvíginu fer fram í Neskaupstað á föstudagskvöld. Í hinu ein­víg­inu mæta deild­ar­meist­ar­ar og nýkrýnd­ir bikar­meist­ar­ar KA liði Aft­ur­eld­ing­ar og verður fyrsti leik­ur þeirra á Ak­ur­eyri annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert