Blaklandsliðin feta nýja slóð í undankeppni EM

Ljósmynd/A&R Photos

Íslensku landsliðin í blaki karla og kvenna skrifa nýjan kafla í sögunni í dag þegar þau taka þátt í undankeppni Evrópumeistaramótsins í fyrsta sinn. Kvennalandsliðið leikur við landslið Belgíu ytra á sama tíma og karlalandsliðið spreytir sig á móti landsliði Slóvaka, einnig á útivelli.

Auk Belga er kvennalandsliðið í riðli með landsliðum Slóvena og Ísraela en karlalandsliðið er í riðli með Svartfellingum og Moldóvum í viðbót við Slóvaka. Allir leika við alla heima og að heiman enda er fyrirkomulag undankeppninnar svipað og þekkist t.d. í körfuknattleik og handknattleik.

„Það að taka þátt í undankeppni af þessu tagi er nýtt fyrir okkur blakara. Við erum full tilhlökkunar en gerum okkur grein fyrir að það verður á brattann að sækja. En einhvern tímann verðum við að byrja,“ sagði Stefán Jóhannsson, varaformaður Blaksambands Íslands og formaður landsliðsnefnda, við Morgunblaðið í gær.

„Bæði lið okkar hafa æft mjög vel í sumar og einnig farið í æfingaferðir út fyrir landsteinana til að stilla saman strengina. Ég held að við höfum gert eins vel og kostur er til þess að búa liðin sem best undir undankeppnina,“ sagði Stefán ennfremur.

Sem fyrr segir leikur kvennalandsliðið við landslið Belga ytra í dag. Ljóst er að íslenska liðið ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Belgar hafa lengi átt eitt fremsta kvennalandslið Evrópu og m.a. unnið til verðlauna á Evrópumótum.

„Leikur hjá karlaliðinu við Slóvaka í dag verður verulega góð prófraun fyrir liðið, það er ljóst,“ sagði Stefán.

Næstu tvo sunnudaga verður boðið upp á blakveislu í Digranesi í Kópavogi þegar undankeppnin heldur áfram með heimaleikjum hjá íslensku landsliðunum en alls verða leiknar fjórar af sex umferðum riðlakeppninnar á næsta hálfa mánuði. Lokaumferðirnar tvær verða í upphafi næsta árs. Sigurlið hvers riðils tryggir sér keppnisrétt í lokakeppni EM á næsta ári.

mbl.is/Stella Andrea
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert