Mateev skipaður varaforseti

Nikolay Ivanov Mateev.
Nikolay Ivanov Mateev. Ljósmynd/ÍSÍ

Nikolay Ivanov Mateev, formaður Skylmingasambands Íslands, var skipaður varaforseti Evrópska skylmingasambandsins á dögunum.

Þetta kemur fram á vef ÍSÍ en þar segir ennfremur;

„Nikolay hefur verið potturinn og pannan í skylmingaíþróttinni hér á landi um langt árabil. Hann var lengi framkvæmdastjóri Skylmingasambands Íslands og var kjörinn formaður sambandsins árið 2016. Hann var fyrst kjörinn í framkvæmdastjórn Evrópska skylmingasambandsins (EFC) árið 2009 og hefur setið í stjórn sambandsins óslitið síðan.

Hann hlaut bestu kosningu allra meðstjórnenda í EFC á þingi sambandsins árið 2017 er hann fékk 36 atkvæði af 40 mögulegum. Í kjölfar þess að skipaður varaforseti sambandsins hætti snögglega störfum var Nikolay skipaður varaforseti sambandsins og mun gegna því embætti til ársins 2020, þegar næsta þing EFC verður haldið.“ 

mbl.is