SA fór létt með Reykjavík

Kolbrún Garðarsdóttir jafnaði metin fyrir SA gegn Reykjavík.
Kolbrún Garðarsdóttir jafnaði metin fyrir SA gegn Reykjavík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

SA átti ekki í miklum vandræðum með Reykjavík þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í Hertz-deild kvenna í íshokkí í morgun en leiknum lauk með 5:1-sigri SA, líkt og í gærkvöldi þegar SA tryggði sér deildarmeistaratitilinn eftir 5:1-sigur á Reykjavík.

Reykjavík byrjaði leikinn betur og komst yfir eftir fimm mínútna leik með marki frá Lauru Murphy. Kolbrún Garðarsdóttir jafnaði metin fyrir SA nokkrum sekúndum síðar og Ragnhildur Kjartansdóttir kom SA yfir eftir sjö mínútna leik.

Eva Karvelsdóttir skoraði þriðja mark SA í upphafi annars leikhluta áður en Katrín Björnsdóttir og Berglind Leifsdóttir bættu við tveimur mörkum til viðbótar fyrir SA undir lok annars leikhluta og þar við sat. 

Þetta var í áttunda skiptið sem liðin mætast á tímabilinu og hefur SA unnið alla leikina nokkuð sannfærandi.

mbl.is