Besta sigraði í fjórðu umferð

Frá keppninni í gærkvöld.
Frá keppninni í gærkvöld.

Skútan Besta sigraði í fjórðu umferð Mbl-mótsins í siglingum kjölbáta sem fram fór í gærkvöld en siglt var eftir baujum á sundunum við Reykjavík. 

Sex skútur þreyttu keppni og voru úrslitin eftirfarandi:

1. Besta       1:41,08 (sigldur tími 1:47,35, forgjöf 0,940)
2. Dögun      1:42,21 (sigldur tími 2:02,08, forgjöf 0,838)
3. Sigurborg  1:42,27 (sigldur tími 1:50,10, forgjöf 0,930)
4. Ögrun       1:42,52 (sigldur tími 1:44,26, forgjöf 0,985)
5. Sif            1:47,43 (sigldur tími 1:54,36, forgjöf 0,940)
6. Sigurvon   1:52,54 (sigldur tími 2:00,22, forgjöf 0,938)

Eins og venja er í kjölbátakeppnum á Íslandi er notast við forgjafarkerfi til að ólíkir bátar geti keppt sín á milli. Sigldur tími er þá margfaldaður með forgjöfinni og raðað í sæti eftir niðurstöðu.

Á mótinu er notast við lágstigakerfi þannig að fyrsta sæti gefur eitt stig, annað sæti tvö stig, o.s.frv. Sá bátur sem er með fæst stig eftir allar umferðir mótsins er sigurvegari. Ef tveir bátar eru með jafnmörg stig fer það eftir fjölda 1. sæta, 2. sæta o.s.frv. hvor hefur vinninginn. Lökustu umferð hvers báts er hent ef sigldar eru 5-10 umferðir, tveimur lökustu ef sigldar eru 11 eða fleiri. Verðlaun eru veitt fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið í samanlagðri stigagjöf. Sigurvegarar mótsins fá farandbikar.

Staðan eftir fyrstu fjórar umferðir mótsins er að Besta er fyrst með 6 stig, Sigurborg er í öðru sæti með 7 stig og Dögun í 3. sæti með 7 stig.

Hægt er að fylgjast með Mbl-mótinu alla þriðjudaga af Sæbraut og Ingólfsgarði. Félagsheimili Siglingafélags Reykjavíkur á Ingólfsgarði er opið meðan á keppni stendur og heitt á könnunni fyrir gesti og gangandi.

mbl.is