Mótið meira en bara fótbolti

Bandaríska liðið fagnar titlinum.
Bandaríska liðið fagnar titlinum. AFP

Bandaríska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann í gær sinn fjórða heimsmeistaratitil. Mótið hefur farið fram átta sinnum frá árinu 1991 og hafa Bandaríkin því unnið helming titlanna. 

Bandaríska liðið sigraði Evrópumeistara Hollands með tveimur mörkum gegn engu í úrslitaleik mótsins í Lyon í gær. Holland var einungis að keppa á heimsmeistaramóti í annað sinn og ekki er við öðru að búast en að stuðningsmenn liðsins séu stoltir. 

Fyrir aðdáendur beggja liða snerist leikurinn ekki aðeins um knattspyrnu, heldur einnig um baráttuna fyrir auknu jafnrétti á milli karla og kvenna innan íþróttarinnar. Ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA um að hafa úrslitaleik Gullbikarsins og Ameríkubikarsins sama dag og úrslitaleik á heimsmeistaramóti, hefur til að mynda verið harðlega gagnrýnd. 

Í myndskeiði BBC má sjá viðbrögð stuðningsmanna beggja liða í lok leiks. Mörgum er umhugað um baráttu knattspyrnukvenna til að fá laun á við karlkyns kollega sína, eða eins og stuðningsmaður Bandaríkjanna orðar það: „Við komum fyrir fótboltann, við vorum áfram fyrir jafnrétti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert